Sjófuglar eru langalgengustu fuglarnir í þjóðgarðinum.
Fuglar
Sjófuglar eru langalgengustu fuglarnir í þjóðgarðinum. Fuglarnir nýta sér syllur í sjávarhömrum til varps en sækja fæðu sína til sjávar. Helstu fuglar í björgunum eru langvía, stuttnefja, álka, fýll og rita auk þess sem finna má teistu og stöku lunda. Toppskarfur og dílaskarfur er algengur á skerjum og oft má sjá hann messa, en svo er það kallað þegar hann breiðir út vængina til að þurrka þá. Máfar verpa víða. Af máfategundum eru svartbakur, silfurmáfur, hvítmáfur og sílamáfur algengir. Söngur algengra mófugla heyrist í þjóðgarðinum, svo sem heiðlóu, spóa, þúfutittlings, sólskríkju og steindepils. Maríuerla, tjaldur, sandlóa, sendlingur, hrafn og rjúpa eru algeng. Votlendisfuglar eru fáliðaðir og hvergi stór vörp. Skógarþröstur er í hraungjótum og nálægt byggð. Haförn varp í Lóndröngum fram yfir aldamótin 1900. Fálki og smyrill eru fágætir. Sendlingur, stelkur, tjaldur, sandlóa, rauðbrystingur, lóuþræll og tildra eru meðal þeirra fugla sem finna má í fjörunni á Snæfellsnesi. Fjöldi þeirra er mestur á vorin og haustin, þegar farfuglarnir eru á leið til og frá varpstöðvunum. Æðarfugl syndir nálægt landi, oft í stórum breiðum. Straumendur sjást oft á sjó við utanvert Snæfellsnes. Stór kríuvörp eru á Arnarstapa og Rifi og krían er einkennisfugl Snæfellsbæjar og er einnig í merki þjóðgarðsins.
Fuglaskoðun
Fuglaskoðun er skemmtan sem öll fjölskyldan getur notið saman. Til að njóta fuglaskoðunarinnar sem best er gott að hafa meðferðis sjónauka og fuglabók. Gætum varúðar við fuglabjörgin, göngum ekki of nærri klettabrúnum og vörumst að valda fuglunum of miklu ónæði. Snögg viðbrögð og köll fæla fuglinn en rólegar hreyfingar og lágvært tal gerir það ekki.
Þúfubjarg og Saxhólsbjarg eru aðgengileg fuglabjörg. Sjá má stöku lunda í björgunum og teistur verpa helst við Malarrif. Í Beruvík eru fallegar tjarnir sem ýmsar tegundir fugla heimsækja. Stór kríuvörp eru rétt utan þjóðgarðsins, við Arnarstapa og Rif en þar er eitt stærsta kríuvarp Evrópu. Kría verpir einnig á Öndverðarnesi.
Önnur dýr
Á gönguferð eftir ströndinni má búast við að sjá sel, bæði útsel og landsel. Ekki eru þó stór látur innan þjóðgarðsins. Hvalir eru algengir við Snæfellsnes, t.d. háhyrningur, hrefna og hnísa. Dýpra undan halda stórhveli sig. Stundum má sjá hvalatorfur út af Öndverðarnesi.
Ekki er óalgengt að sjá ref í hrauninu og meðfram ströndinni. Minkur heldur sig í fjörunni þar sem æti er helst að hafa.
Í pollum og gjótum á ströndinni er oft líflegt, einkum þegar sjór er nýfallinn frá. Kuðungar, marflær, krabbar, sprettfiskar og fleiri smádýr vekja þá áhuga athugulla gesta. Auðvelt er að gleyma sér við að fylgjast með öldurótinu eða við að skoða fjölbreytt lífríki fjörunnar. Ef steini er snúið við er nauðsynlegt að færa hann aftur í fyrra horf til þess að líf undir honum spillist ekki. Munum að þang og kuðungar á klöppum og steinum eru lifandi.