Þjónusta við ferðamenn

Vegur 574, Útnesvegur, liggur um þjóðgarðinn og er aðkoma bæði að sunnan og norðan. Vegurinn er að hluta til malarvegur en ætlunin er að búið verði að leggja bundið slitlag á hann haustið 2008. Frá Reykjavík eru rúmir 200 km að þjóðgarðsmörkum. Yfir sumarið eru daglegar áætlunarferðir á milli Reykjavíkur og Hellisands/Ólafsvíkur. Einnig er í boðið uppá hringferð fyrir jökul. Trex.is

Starfsmenn þjóðgarðsins aðstoða gesti og veita þeim upplýsingar um þjóðgarðinn og nágrenni hans. Þeir bjóða upp á skipulagðar göngu- og fræðsluferðir og eru gestir hvattir til að kynna sér þær og taka þátt í þeim.

Á Hellnum er gestastofa þjóðgarðsins. Þar er skemmtilegur og margvíslegur fróðleikur um svæðið, bæði náttúru og mannlíf.

Tjaldsvæði eru ekki innan þjóðgarðsins en í nágrenni hans eru tjaldsvæði og úrval gististaða. Veitingastaðir eru í nágrenninu. Sundlaugar eru í Ólafsvík, á Lýsuhóli, í Grundarfirði og Stykkishólmi. Næstu matvöruverslanir eru á Hellissandi, Rifi og Ólafsvík. Bensínafgreiðslur eru á sömu stöðum og einnig á Arnarstapa og Vegamótum.

Öllum er frjálst að ganga um land þjóðgarðsins en ætlast er til að merktum gönguleiðum sé fylgt þar sem þær eru fyrir hendi. Akstur er leyfður á akvegum og merktum slóðum og hjólreiðar einnig. Hestaumferð er heimil á merktum reiðleiðum. Þeir sem hyggjast fara með hesta um þjóðgarðinn eru beðnir um að hafa áður samband við starfsmenn hans.

Göngum vel um náttúruna og vinnum ekki spjöll á henni svo sem með því að aka utan vega, rífa upp gróður, raska jarðmyndunum eða trufla dýralíf. Gætum þess að gróður er oft þurr og kveikjum hvorki eld á víðavangi né setjum einnota grill á gróið svæði. Tökum allt sorp með okkur. Hundar eru velkomnir í þjóðgarðinn en höfum þá í ól og þrífum eftir þá úrgang.