Snæfellsnes er virkt gossvæði.
Snæfellsnes er virkt gossvæði. Það er utan þess gosbeltis sem liggur þvert í gegnum Ísland frá suðvestri til norðausturs á flekaskilum Norður-Ameríku og Evrasíu. Jarðfræði Snæfellsness er afar fjölbreytt og jarðmyndanir eru frá nær öllum tímabilum í jarðsögu Íslands. Neðst eru hraunlög frá tertíer (eldri en þriggja milljón ára).
Þar ofan á eru móbergslög, mynduð undir jökli á ísöld, og hraun frá jökullausum hlýskeiðum ísaldar (yngri en þriggja milljón ára).
Efst eru hraun frá því eftir að ísöld lauk fyrir 11 þúsund árum.
Í og við þjóðgarðinn ber mest á jarðmyndunum frá síðasta jökulskeiði og frá nútíma. Fjöllin norðan Snæfellsjökuls eru úr móbergi og hafa myndast við gos undir jökli eða í sjó. Svalþúfa er líklegast austurhluti gígs sem gosið hefur í sjó og Lóndrangar gígtappar.
Í þjóðgarðinum eru hraun áberandi í landslaginu, bæði úfin apalhraun og sléttari helluhraun. Stór hluti þeirra hefur runnið úr Snæfellsjökli, bæði úr toppgígnum og úr gígum í hlíðum fjallsins. Hraunmyndanir eru margbreytilegar og fallegar og er svæðið auðugt af hellum. Ferðamönnum er eindregið ráðlagt frá því að fara í þá nema í fylgd kunnugra.
Á láglendi eru eldvörpin Purkhólar, Hólahólar, Saxhólar og Öndverðarneshólar og umhverfis eru hraun sem runnið hafa úr þeim.