Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Landsvæðið vestast á Snæfellsnesi er oft nefnt undir Jökli.

Heillandi náttúra og merkar sögulegar minjar urðu til þess að þar var
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull stofnaður 28. júní árið 2001. Jafnframt er markmiðið að auðvelda fólki að ferðast um svæðið og kynnast því. Hann er fyrsti þjóðgarður á Íslandi sem nær í sjó fram.

Sérstaða þjóðgarðsins felst í nálægðinni við sjóinn og samspili mannlífs og náttúru. Þjóðgarðar eru þjóðareign og er öllum frjálst að fara um þá, samkvæmt þeim reglum sem um þá gilda.
Þjóðgarðsvörður sér um daglegan rekstur þjóðgarðsins í umboði Umhverfisstofnunar.

Yfir sumarmánuðina starfa þar landverðir við fræðslu, upplýsingagjöf, eftirlit og umhirðu. Skipulagðar gönguferðir eru nokkrum sinnum í viku.
Gestir eru hvattir til að leita upplýsinga og fræðslu hjá starfsfólki þjóðgarðsins.

Engin tjaldsvæði eru í þjóðgarðinum.